8.1.2009 | 17:59
Blekkingaleikur eða áróðursbragð?
Ég vísa í fyrirsögninni á fyrirsögn greinar Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur í Mbl. í dag, þar sem hún efast stórlega um trúverðugleika ríkisskipaðrar nefndar sem rannsaka á aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Jakobína dregur í efa að þessi nefnd lögfræðinga sé fær um að skila fullnægjandi niðurstöðum og rökstyður það álit sitt á ýmsan hátt.
Ég ætla ekki að endursegja grein hennar, en hvet fólk til að lesa hana. En eins og Einar Már sagði á fundinum sl. laugardag, að þar sem löggjafinn var búinn að fella niður og eða breyta gjörvöllu regluverki fjármálakerfisins þá var allt meira og minna löglegt sem gert var. En var það siðferðislega rétt eða yfir höfuð skynsamlegt og eru höfuðsökudólgarnir ekki einmitt þessi stjórnvöld sem skirrast við að kannast við að hafa gert nokkuð rangt hvað þá að bera ábyrgð á nokkrum hlut?
Margt hefur nú verið sagt, margar blaðagreinar skrifaðar, bloggað hefur verið í öllum hornum, fundir haldnir og mótmæli færast í vöxt. Fréttst hefur af grasrótarsamtökum sem undirbúa ný framboð og líkur standa til þess að í þetta skiptið sé landanum nóg boðið og menn séu ekki tilbúnir að láta valta yfir sig mótþróalaust. Því leyfi ég mér að stinga uppá að við grasrótin leitum til valinkunnra manna sem búa yfir sérþekkingu, reynslu og færni að rannsaka skipulega uppá eigin spýtur allt þetta ferli. Þessi hópur starfi algjörlega óháður stjórnvöldum, stofnunum, flokkum og heyri einungis undir þjóðina beint, td. með pallborðsfundum sbr. borgarafundinn í Háskólabíói. Alþýða manna yrði hvött til að vitna um reynslu sína bæði opinberlega eða leynilega skv. verklagsreglum sem settar yrðu þar um. Amen
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.