Er Mogginn búinn að týna eignarfallinu?

Ég er svo sem ekkert að taka afstöðu til efnis greinarinnar að öðru leiti en því að ég er almennt mótfallinn dauðarefsingum. En að tala um ´nauðgun á barni´ þykir mér einstaklega vond íslenska. Skv. íslenskri málvenju er eðlilegra að nota eignarfall í þessu samhengi, ´nauðgun barns´eða þá, eins og reyndar er gert í upphafi greinarinnar, að tala um verknaðinn ´að nauðga barni´.

Ég man eftir auglýsingu sem birtist í einhverju dagblaðanna fyrir nokkrum árum þar sem talað var um ´tilboð á sturtuklefum´. Þá sá ég fyrir mér einhvern atburð sem ætti sér stað uppi á sturtuklefunum og varð forvitinn um hvers lags tilboð þar væri um að ræða sem væri svo merkilegt að maður þyrfti að klifra uppá sturtuklefa til að komast að því!

Sem barn las ég mér til mikillar ánægju bækurnar um Salómon svarta. Þar komu við sögu  tvíburarnir Fíi og Fói og afi þeirra sem sífellt var að vanda um við drengina og minna þá á að vanda málfar sitt. Mér dettur stundum í hug að fjölmiðlana flesta vanti einmitt svona afa.

 


mbl.is Ekki dauðasök að nauðga barni samkvæmt Hæstarétt Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mogginn virðist líka eiga í vandræðum með þágufallið, nema kindur hafi dæmt í málinu (en þá hefði átt að segja "samkvæmt Hæsturétt").

Gunnar Jakob Briem (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 00:54

2 Smámynd: Sigurjón

Já, fyrir utan þágufalls-i í ,,hæstarétti"...

Sigurjón, 26.6.2008 kl. 02:03

3 Smámynd: Helga Linnet

og ég sem hélt að ég væri slæm hvað varðar málfar og stafsetningu!! óboj...ég er kettlingur

Eins fer þessi hrikalega setningin: "ég er ekki að nenna þessu" í mínar fínustu taugar. Ótrúlegt hvað hún virðist loða við marga. 

Mér finnst gaman að lesa blogg/pistla frá öðrum þegar bæði stafsetning og málfar er skikkanlegt.

Velkominn í blogg-heima Guðmundur

Helga Linnet, 26.6.2008 kl. 09:10

4 identicon

Mikið rosalega er ég sammála þér með afann.

En það sem fer mest í taugarnar á mér er þegar ég horfi á handbolta eða fótbolta í sjónvarpi, og þulirnir segja: "Þessi gerði fyrsta markið". Það skorar víst enginn mark lengur.

Takk fyrir að vera með mér í baráttunni gegn ófríðri íslensku ;) 

Þórdís Inga (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 06:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband